UPPHAFSSÍÐA | ÁLYKTANIR | VERKEFNI | PISTLAR | LÖG FÉLAGSINS | ÁHUGAVERÐAR SÍÐUR OG TENGLAR


Ályktanir

Ályktun aðalfundar Náttúruverndarsamtaka Suðurlands 5. maí 2011

Athugasemdir NSS um aðalskipulagsbreytingu vegna Bitruvirkjunar

Efni: Mótmæli og athugasemdir vegna breytinga á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss á Bitru og aðliggjandi svæðum.

Náttúruverndarsamtök Suðurlands gera hér með athugasemdir við auglýstar breytingar á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss, dags. 20. ágúst 2009.

Auglýst breytingartillaga gerir m.a. ráð fyrir því að 285 ha. svæði á Bitru verði breytt í iðnaðarsvæði fyrir jarðgufuvirkjun.
Náttúruverndarsamtök Suðurlands leggjast alfarið gegn þessari breytingu á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss og telja að áform um virkjun á Bitru og aðliggjandi svæði rýri verulega lífsgæði íbúa í Hveragerði og í næsta nágrenni.

...... sjá nánar.

Ályktanir aðalfundar Náttúruverndarsamtaka Suðurlands
6. júní 2009

Ályktun um friðun Langasjávar og nærliggjandi svæða:

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 6. júní 2009 hvetur eindregið sveitarstjórn Skaftárhrepps og Umhverfisráðuneytið til að ljúka samningum um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftárhreppi. Eitt ár er nú liðið frá stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs en við það tækifæri gaf sveitarstjórn Skaftárhrepps svohljóðandi fyrirheit í bókun fundargerðar 29. maí 2008.

„Stefnt verði að því að Langisjór og svæðið austan Tungnár að núverandi mörkum Lakagígasvæðisins í Skaftafellsþjóðgarði, samkvæmt nánari ákvörðun um markalínur, verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði í júní 2009”

Friðlýsa þarf þetta svæði hið fyrsta og fella Langasjó, Eldgjá og nærliggjandi svæði allt vestur að Tungnaá undir Vatnajökulsþjóðgarð.

Á vestursvæði þjóðgarðsins á hálendinu vestan og suðvestan Vatnajökuls er að finna eitt af fáum stórum víðernum sem eftir eru í Evrópu. Á svæðinu eru einnig margar merkar jarðfræðiminjar á lands- og heimsvísu. Má þar m.a. nefna hinar einstöku móbergshryggjamyndanir allt frá Lakagígum að Tungnaá sem ekki er að finna annars staðar á jörðinni.

Ályktun um útiræktun á erfðabreyttu byggi:

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðurlands ( NSS) haldinn á Kirkjubæjarklaustri 6. júní 2009 varar eindregið við að veitt verði leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi í Gunnarsholti eins og sótt hefur verið um leyfi til.

NSS telja mjög varhugavert að sleppa erfðabreyttum lífverum í íslenska náttúru.

Þekking á langtíma afleiðingum erfðabreytinga og útiræktunar erfðabreyttra plantna er enn sem komið er takmörkuð. Vísbendingar eru þó smám saman að koma fram um neikvæð áhrif á umhverfi og heilsufar sem gefa tilefni til fyllstu varúðar í meðförum erfðabreyttra lífvera.

NSS telja því að í þessu tilviki eigi náttúran að njóti vafans og slík ræktun eigi að fara fram innanhúss í lokuðu, stýrðu og öruggu umhverfi undir ströngu eftirliti.

NSS hvetja umráðamenn lands á Suðurlandi og annars staðar til að lýsa lönd sín svæði án erfðabreyttra lífvera, þar með talda bændur og eigendur landbúnaðarsvæða, sveitarfélög sem fara með skipulagsvald, svo og stofnanir og samtök sem annast eða eiga nytjaland.

NSS telja að útiræktun erfðabreyttra lyfja- og iðnaðarplantna í Gunnarsholti kunni að valda umhverfi og atvinnulífi Suðurlands óbætanlegu tjóni á sama tíma og ferðaþjónusta, bændur og sveitarfélög leitast við að skapa héraðinu ímynd hreinleika og óspilltrar náttúru.

Ályktanir aðalfundar Náttúruverndarsamtaka Suðurlands
21. apríl 2008

Ályktun um lífræna þróun:

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðurlands haldinn á Sólheimum í Grímsnesi 21. apríl 2008 vekur athygli á því að vísindamenn hafa nú sýnt fram á að lífrænar aðferðir skila betra umhverfi, fjölþættara lífríki, meiri kolefnisbindingu, auknum næringargæðum og meira heilbrigði en hefðbundnar aðferðir.

Fundurinn hvetur bændur og fyrirtæki til að taka upp vottaðar lífrænar aðferðir í framleiðslu matvæla og náttúruafurða.

Fundurinn átelur jafnframt að bændum skuli ekki vera tryggður stuðningur til lífrænnar aðlögunar á borð við þann sem veittur er í nær öllum löndum Evrópu. Fundurinn skorar á landbúnaðarráðherra og Alþingi að gera hér snarlega bragarbót á og margfalda fjárveitingar til lífrænnar aðlögunar.

Ályktun um Vatnajökulsþjóðgarð og Langasjó:

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðurlands haldinn á Sólheimum í Grímsnesi 21. apríl 2008 fagnar stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem væntanlega verður staðfest með setningu reglugerðar á árinu.

Náttúruverndarsamtök Suðurlands fagna ósk umhverfisráðuneytisins um að Langisjór verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði frá upphafi og hvetur sveitarstjórn Skaftárhrepps eindregið til að verða við beiðni ráðuneytisins og fella Langasjó og nærliggjandi svæði allt vestur að Tungnaá undir Vatnajökulsþjóðgarð.

Á vestursvæði þjóðgarðsins á hálendinu vestan og suðvestan Vatnajökuls er að finna eitt af fáum stórum víðernum sem eftir eru í Evrópu. Á svæðinu eru einnig margar merkar jarðfræðiminjar á lands- og heimsvísu. Má þar m.a. nefna hinar einstöku móbergshryggjamyndanir allt frá Lakagígum að Tungnaá sem ekki er að finna annars staðar á jörðinni.

Virkjanir í neðri hluta Þjórsá:

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðurlands haldinn 21. apríl 2008 á Sólheimum í Grímsnesi leggst eindregið gegn virkjunum í neðri hluta Þjórsár og lýsir undrun sinni á vinnubrögðum Landsvirkjunar og sveitarstjórna sem málið varðar sem hafa m.a. hafnað íbúafundum um þetta stóra og afdrifaríka mál gegn náttúru Suðurlands.

Aðalfundurinn skorar einnig á þingmenn Suðurkjördæmis að standa vörð um náttúru og landslag á Suðurlandi

Ályktun um Náttúruverndarsamtök Vestfjarða og olíuhreinsunarstöð:

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðurlands haldinn á Sólheimum í Grímsnesi 21. apríl 2008 fagnar endurvakningu Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða og styður samtökin heils hugar í baráttu þeirra fyrir verndun náttúrunnar og gegn olíuhreinsunarstöð sem hugmyndir eru um að reisa á Vestfjörðum.


Fréttatilkynning til fjölmiðla

Efni: Ályktun frá Náttúruverndarsamtökum Suðurlands vegna samþykktar hreppsnefndar Mýrdalshrepps, dags. 28.06.2007, um breytta legu þjóðvegar 1 um Mýrdal

Samkvæmt ákvörðun Mýrdalshrepps um breytingu á aðalskipulagstillögu er gert ráð fyrir jarðgöngum og nýrri veglínu þjóðvegar 1 um Mýrdal þannig að þjóðvegurinn liggi vestur eftir Víkurfjöru við suðurjaðar Víkurkauptúns, vestan þess við Blánef í göngum gegnum Reynisfjall, þaðan liggi þjóðvegurinn í gegnum ræktunarlönd bænda í Reynishverfi og eftir bökkum Dyrhólaóss að norðan, þ.e. um votlendi og á jaðri friðlýstra náttúruminja, síðan í göngum gegnum Geitafjall og þar um ræktað land sunnan Ketilsstaða.

Í áliti stjórnar Náttúruverndarsamtaka Suðurlands (NSS) um þetta mál 21. nóvember 2005 var bent á að “Mýrdalur er mjög landþröngt hérað, en jafnframt eru svæði þau sem tillögur um nýja veglínu snerta mjög verðmæt frá náttúrufarslegu sjónarmiði, bæði á landsvísu en ekki síður á alþjóðavísu. Ströndin, sjávarhamrarnir, sjávarleirurnar, ósinn, fuglalífið, gamla þorpið í Vík og hin fornu byggðahverfi sveitarinnar eru eftirsótt til útivistar, ljósmyndunar og náttúruskoðunar, og tugir þúsunda ferðamanna sækja þetta svæði þess vegna á hverju ári. Mörg kennileiti, svo sem Víkurfjara, Reynisdrangar og Dyrhólaey eru þekkt um allan heim. Dyrhólaós, leirur hans og votlendi hafa mikla þýðingu fyrir fjölbreytt fuglalíf árið um kring, en einkum þó á vorin og fram á haust. Svæðið hefur því ómetanlegt náttúruverndargildi en ekki síður gífurlegt efnahagslegt gildi fyrir atvinnulíf og ferðaþjónustu, bæði í Mýrdal og í landinu almennt. Líta ber á það sem forgangsverkefni í skipulagsgerð að vernda þessi svæði gegn hverskonar raski og óafturkræfum framkvæmdum.”

Stjórn NSS telur ljóst að samþykkt sveitarstjórnar Mýrdalshrepps um veglínu muni, ef til kemur, valda verulegum óafturkræfum breytingum á þessum svæðum, einkum þó Víkurfjöru, Reynishverfi, ræktunarlöndum bænda og votlendinu við Dyrhólaós.

Stjórn NSS telur nauðsynlegt að breytingar á samgöngumannvirkjum lúti í senn markmiðum um náttúruvernd, öryggi og langtíma hagkvæmni, og gerir þá kröfu að til grundvallar ákvörðunum stjórnvalda liggi faglegt mat á þessum þáttum. Stjórn NSS telur því ótímabært að ný veglína fyrir þjóðveg 1 sé sett í aðalskipulagstillögu fyrr en gerðar hafi verið athuganir á annars vegar úrbótum á núverandi veglínu og hins vegar öðrum valkostum, með tilliti til (1) umhverfisáhrifa, (2) kostnaðar og umferðaröryggis, (3) efnahags- og félagslegra áhrifa á landnytjar, landbúnað og ferðaþjónustu (4) og áhrifa breytinga á ímynd og ásýnd svæðisins.

f.h. stjórnar Náttúruverndarsamtaka Suðurlands,
Ólafía Jakobsdóttir, formaður


Ályktun um Hellisheiðarvirkjun samþykkt á stjórnarfundi 26. apríl 2007

Umhverfisstofnun

Orkuveita Reykjavíkur
Sveitarfélagið Ölfus
Hveragerðisbær
Umhverfissvið Reykjavíkur
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands

"Náttúruverndarsamtök Suðurlands lýsa yfir áhyggjum af aukinni loftmengun, sem rekja má til Hellisheiðarvirkjunar, Nesjavallavirkjunar og til þeirra miklu jarðborana, sem hafa farið fram og standa yfir á Hengilsvæðinu, Hellisheiði, Skarðsmýrarfjalli og við Ölkelduháls.

Samtökin skora á bæjar- og sveitarstjórnir á þessum svæðum, Orkuveitu Reykjavíkur, Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og Umhverfisstofu Reykjavíkur að upplýsa almenning um þessi mál og hraða vinnu við að stemma stigu við þeirri loftmengun, sem verður til við framangreindar framkvæmdir.

Virðingarfyllst,

fyrir hönd NSS

___________________________________

Elín Erlingsdóttir

formaður stjórnar

 


Ályktun fundar sem Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Sól á Suðurlandi boðuðu til:

Fjömennur fundur um virkjanir í neðrihluta Þjórsár haldinn í Árnesi 11.feb. 2007

mótmælir harðlega virkjana áformum Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár og skorar á öll viðkomandi sveitarfélög að veita fyrirhuguðum virkjunum ekki brautargengi. Einnig skorar fundurinn á íslensk stjórnvöld að fórna ekki íslenskri náttúru til framkvæmda sem nýtast eiga til mengandi starfsemi.

Greinargerð
Af virkjunarframkvæmdum verða óafturkræf og veruleg náttúruspjöll. Í ljósi umræðu um þá ógn sem stafar af hlýnun af mannavöldum og ljóst er að orka þessara virkjana yrði notuð til mengandi stóriðju, er óásættanlegt að fara í þessar framkvæmdir. Fyrirhugaðar framkvæmdir munu auka enn á stöðugleika hagkerfisins og skila þeim byggðum sem leggja til orkuna, fáum störfum þegar til framtíðar er litið. Þjórsá er á virku jarðskjálfta- og leku spungusvæði. Ekki hefur verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að íbúar geti treyst fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum. Verðmæti náttúrunnar hafa hingað til verið vanmetin og þurfa að fá aukið vægi.Maí 2006.
Umhverfisstofnun
b/t Davíðs Egilssonar
Suðurlandsbraut 24
108 Reykjavík

Stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands hefur samþykkt eftirfarandi ályktun:

“Stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands styður og fagnar ákvörðun Umhverfisstofnunar um að umferð verði áfram takmörkuð um friðlandið Dyrhólaey frá 1. maí til 25. júní eða um varptíma fugla sem þar verpa.

Dyrhólaey er griðastaður þúsunda sjófugla og þar má finna tugi annarra fuglategunda. Eyjan er einn örfárra staða við strönd Íslands þar sem með góðu móti eru unnt að sjá svo margar tegundir sjó- og landfugla. Dyrhólaey hefur umhverfisverndargildi á heimsmælikvarða fyrst og fremst vegna hins fjölbreytta fuglalífs sem þar hefur þrifist m.a. fyrir jákvæð áhrif friðunar um varptímann. Fuglalíf í Dyrhólaey hefur átt undir vaxandi högg að sækja vegna mikillar og vaxandi umferðar og er það álit NSS að áframhaldandi friðun um varptímann sé mjög mikilvæg til viðhalda hinu fjölbreytta fuglalífi friðlandsins.

Gögn sem NSS hefur kynnt sér sýna að frá því að lokun Dyrhólaeyjar á varptíma var fyrst tekin upp árið 1982 hafi hún haft mjög víðtækt gildi fyrir gróður og fuglalíf. NSS minnir ennfremur á að Dyrhólaey er friðlýst svæði þar sem óheimilt er að valda tjóni á náttúrufari. Kröfur um að staðurinn sé opinn á varptíma standast því ekki landslög eða opinberar skuldbindingar um náttúruvernd”.

 

Virðingarfyllst,
fyrir hönd NSS

___________________________________
Elín Erlingsdóttir
formaður stjórnar


21. nóvember 2005.

Til:
Skipulags- og byggingarnefndar Mýrdalshrepps
Austurvegi 17, 870 Vík

Umsögn um tillögur varðandi jarðgöng og ný stæði undir þjóðveg 1 um Mýrdal.
Samkvæmt tillögum Mýrdalshrepps um jarðgöng og nýja veglínu þjóðvegar 1 um Mýrdal er gert ráð fyrir að þjóðvegurinn fari um Víkurfjöru sunnan Víkurkauptúns og vestan þess í gegnum Reynisfjall, þaðan liggi þjóðvegurinn um Dyrhólaós, um jaðar friðlandsins á Dyrhólaey eða um ósinn norðanverðan, þ.e. votlendi og friðlþýstar náttúruminjar og vestur eftir Dyrhólahverfi eða um Geitafjall (með göngum sunnan Ketilsstaða eða yfir fjallið norðanvert).
Mýrdalur er mjög landþröngt hérað, en jafnframt eru svæði þau sem tillögur um nýja veglínu snerta mjög verðmæt frá náttúrufarslegu sjónarmiði, bæði á landsvísu en ekki síður á alþjóðavísu. Ströndin, sjávarhamrarnir, sjávarleirurnar, ósinn, fuglalífið, gamla þorpið í Vík og hin fornu byggðahverfi sveitarinnar eru eftirsótt til útivistar, ljósmyndunar og náttúruskoðunar, og tugir þúsunda ferðamanna sækja þetta svæði þess vegna á hverju ári. Mörg kennileiti, svo sem Víkurfjara, Reynisdrangar og Dyrhólaey eru þekkt um allan heim. Dyrhólaós, leirur hans og votlendi hafa mikla þýðingu fyrir fjölbreytt fuglalíf árið um kring, en einkum þó á vorin og fram á haust. Svæðið hefur því ómetanlegt náttúruverndargildi en ekki síður gífurlegt efnahagslegt gildi fyrir atvinnulíf og ferðaþjónustu, bæði í Mýrdal og í landinu almennt. Líta ber á það sem forgangsverkefni í skipulagsgerð að vernda þessi svæði gegn hverskonar raski og óafturkræfum framkvæmdum.
Stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands (NSS) telur hins vegar augljóst að allar fyrirliggjandi tillögur að veglínum myndu, ef til kæmi, valda verulegum óafturkræfum breytingum á þessum svæðum, einkum þó Víkurfjöru, Dyrhólaós og svæðunum umhverfis þau.
Stjórn NSS átelur ófaglega málsmeðferð við undirbúning fyrirliggjandi tillagna þar sem ekki var unnið í samræmi við eðlilegt ferli við skipulagsgerð. Samráð við hlutaðeigandi aðila var ekki haft og sá frestur sem gefinn var til athugasemda er algerlega ófullnægjandi. Þá hafa ekki verið gerðar viðhlítandi athuganir á áhrifum þeirra fórna sem framkvæmd tillagna þessara hefði í för með sér fyrir lífríkið á svæðinu og fyrir ferðaþjónustuna á Suðurlandi.
Að þessu samanlögðu leggst stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands gegn fyrirliggjandi tillögum. Stjórn NSS telur með öllu ótímabært að sett sé í aðalskipulagstillögu ný veglína fyrir þjóðveg 1 fyrr en faglegar rannsóknir hafi leitt í ljós knýjandi nauðsyn þess að núverandi veglínu verði breytt. Stjórnin telur einboðið að gerð sé athugun á úrbótum á núverandi veglínu með tilliti til umferðaröryggis.

Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Náttúruverndarsamtaka Suðurlands
___________________________
Elín Erlingsdóttir


29. apríl 2005.

Hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps
Árnesi
801 Selfoss

Efni: Áskorun

Náttúruverndarsamtök Suðurlands (NSS) eru frjáls félagasamtök sem hafa það að markmiði að gæta hagsmuna náttúrunnar. Samtökin ná yfir Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, í þeim eru milli 60 og 70 félagar úr öllum sýslum.
Á stjórnarfundi Náttúruverndarsamtaka Suðurlands þann 28.apríl s.l. var eftirfarandi ályktun samþykkt:
Náttúruverndarsamtök Suðurlands skora á Hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps falla frá auglýstri skipulagstillögu og gera ekki ráð fyrir Norðlingaölduveitu og tilheyrandi mannvirkjum í skipulaginu eða fresta skipulagi á svæðinu.
Samtökin lýsa eindregnum stuðningi við þá hugmynd að kannaðir verði til hlýtar þeir möguleika sem fyrir hendi eru á að Þjórsárver og nágrenni komist á heimsminjaskrá UNESCO.

Virðingarfyllst,
fyrir hönd NSS.
Elín Erlingsdóttir
____________________________________
formaður stjórnar


Á stjórnarfundi Náttúruverndarsamtaka Suðurlands þann 13. júní s.l. var eftirfarandi ályktun samþykkt:
Náttúruverndarsamtök Suðurlands skora hér með á Samvinnunefnd miðhálendisins að styðja ekki áætlanir um fyrirhugaðar framkvæmdir við Norðlingaöldulón, veitu og setlón með veitu við Þjórsárjökul. Samtökin hvetja nefndina til að taka tillit til þeirra 98 athugasemda sem undirskrifaðar voru af 275 einstaklingum sem gerðar voru á athugasemdatíma aðalskipulags Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Samtökin vilja vekja athygli á þeirri staðreynd að í Náttúruverndaráætlun 2004 – 2008 er ekki gert ráð fyrir neinum nýjum friðuðum svæðum á Suðurlandi eins og í hinum landshlutunum. Það er því langt gengið af hendi stjórnvalda að skerða friðland sem þar að auki þykir afar sérstakt á heimsvísu. Frekar væri ástæða til að kanna framkomnar tillögur um stækkun friðlandsins til hlýtar þá möguleika sem fyrir hendi eru á að Þjórsárver og nágrenni komist á heimsminjaskrá UNESCO.
Forsendur og möguleikar til orkuvinnslu breytast hratt nú á dögum og því rík ástæða til að endurskoða gamlar og úrsérgengnar áætlanir um uppistöðulón á hálendinu, grípa tækifærið og eira Þjórsárverum.

 


HÖNNUN OG UMSJÓN: ÖRN ÓSKARSSON